Viðburðir um allt land

Skrá viðburð

Söguganga - Vífilsstaðasel í Heiðmörk

Gengið að Vífilsstaðaseli í Heiðmörk 27. september kl. 18 Miðvikudaginn 27. september kl. 18 en þá verður haldið í göngu undir þemanu náttúra þar sem gengið verður að Vífilsstaðaseli í Selholti í Heiðmörk undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings. Mæting í gönguna er við bílaplanið við Heiðmerkurveg, beygt inn á Heiðmerkurveg hjá Maríuhellum og ekið áfram uþb 1,5 km að bílaplaninu. Frá bílaplaninu verður gengið með hlíðinni upp veginn að Vífilsstaðaseli og tilbaka, um klukkutíma ganga. Vífilsstaðasel er austan við línuveg í skjólgóðum og grasi grónum hvammi, sunnan þess er Selholt, Selás suðaustan og Selhóll þar vestur af með Selkvíunum. Í mýrarkorni er svo Selbrunnurinn og þar vestur af liggur Selstígurinn að Vífilstöðum. Þarna eru leifar af nýrri og eldri selstöðum og er því að finna mörg hús á svæðinu frá mismunandi tímum. Elstu selin eru útflött og erfitt að átta sig á húsaskipan en yngsta selið er vel greinilegt og eru fimm rými í þeim og öll í röð. Leifar af tveimur stekkjum er finna rétt ofan við selin. Lýðheilsugöngur í boði Garðabæjar hafa farið vel af stað það sem af er september. Um er að ræða göngur sem eru hluti af verkefni Ferðafélags Íslands um lýðheilsugöngur alla miðvikudaga í september. Göngurnar eru um leið áframhald vinsælla sögu- og fræðslugangna Garðabæjar. Allar upplýsingar um göngustaði og gönguleiðir annars staðar á landinu má finna á vef verkefnisins www.fi.is/lydheilsa.

Íbúafundur borgarstjóra í Grafarvogi

Íbúafundur borgarstjóra um málefni Grafarvogs verður haldinn miðvikudaginn 27. september kl. 20.00 í Borgum, félags- og menningarmiðstöðinni Spönginni 43. Allir velkomnir og heitt á könnunni. Dagskrá fundarins: 1) Frumsýning á myndbandi um Grafarvog. Höfundur SiljaYraola, nemi í landslagsarkitektúr. 2) Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri fer yfir þau mál sem eru á döfinni í Grafarvogi í þjónustu og uppbyggingu innan hverfisins. 3) Þorsteinn R. Hermannsson samgöngustjóri kynnir undirbúning Borgarlínu og hvernig hún mun bæta samgöngur í borginni. 4) Sesselja Eiríksdóttir sem verið hefur virk í starfi eldri borgara horfir á Grafarvog frá þeirra sjónarhóli. 5) Fyrirspurnir og svör. Fundarstjóri: Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness.

Íslenskt snitsel #1 / Janus Bragi Jakobsson

Snilld, algjör snilld, snitsel! Snitsel er æðsta form snilldar. Íslenskt Snitsel er gjörningafyrirlestraröð þar sem Janus Bragi notast við fundið efni, myndbönd sem aðrir Íslendingar hafa skapað og sett á netið. Frá september til desember 2017 munu hann og meðleikari halda tilraunakvöld í Mengi þar sem rannsókn á efninu fer fram fyrir opnum tjöldum. Tilraunakvöldin verða haldin síðasta miðvikudag hvers mánaðar. Myndböndin eru oftast skrásetningar á hversdegi og hátíðlegum stundum, eins konar myndaalbúm sem eru aðgengileg öllum sem sjá vilja. Sum þeirra eru líka sett á netið í þeim tilgangi að auglýsa vöru eða viðburð og önnur eru brot úr dagskrárgerð íslenskra ljósvakamiðla. Sett undir sama hatt verða þau sjónarhorn á íslensku þjóðarsálina og á hugmyndir þjóðar um gildismat, sjálfsmynd, minningar og fagmennsku. Viðburðurinn hefst klukkan 21 og húsið verður opnað klukkan 20:30 Miðaverð á Íslenskt snitsel er 1000 krónur. Hægt er að bóka miða á booking@mengi.net.